top of page

HAFNIRNAR

FAXAFLÓAHAFNIR

REYKJAVÍKURHÖFN

LÍFÆÐ BORGAR - LÍFÆÐ ÞJÓÐAR Hvað væri Reykjavík án hafnar? Knud Zimsen fyrrum borgarstjóri spurði þessarar áleitnu spurningar í bók sinni „Úr bæ í borg” og svarar henni síðan á eftirfarandi hátt: „Sennilega ekki höfuðstaður landsins, líklega lítið kotþorp og fremd þess við það eitt bundið, að Ingólfur setti sig þar niður í öndverðu og Innréttingar Skúla fógeta lentu þar”. Öllum þessum árum seinna vitum við betur, höfnin varð þungamiðja alls athafnalífs í borginni og hefur þróast með þjóðinni sem miðstöð flutninga til og frá landinu. Nýlega átti höfnin 100 ára afmæli frá því að formlegri hafnargerð lauk árið 1917 en með því gátu skip lagst að bryggju og athafnað sig innan hafnarinnar. Þetta var mikið framfaraspor og stórhugur í einni viðamestu verklegu framkvæmd landsins á sínum tíma. Verklag og tækniþróun hefur tekið miklum breytingum frá þeim tíma þegar  allar vörur voru fluttar úr kaupskipum í land með handafli á árabátum. Breytingarnar komu í stökkum svo sem  breytt verklag við löndun sem fylgdi komu Bandaríska hersins og síðar bretta- og gámavæðingin.  Mikilvægi hafnarinnar í allri þessari framþróun er mikil. Í dag er þar iðandi mannlíf og mikil uppbygging á sér stað allt í kringum höfnina og hafnarsvæðið. 

SUNDAHÖFN

Ákveðið var á 7. áratugnum að hefjast handa við hafnargerð á Sundunum í Reykjavík. Ráðist var í miklar framkvæmdir með nýjum landfyllingum og gerð hafnarbakka á svæðinu vegna aukinna umsvifa í flutningum og atvinnustarfsemi í landinu. Þar er nú stærsti viðlegukantur landsins fyrir skemmtiferðaskip sem sífellt fjölgar. Áætlanir gera ráð fyrir frekari framkæmdum með það að markmiði að Sundahöfn verði áfram aðal inn- og útflutningshöfn landsins.  

AKRANES

Akraneshöfn á sér langa sögu. Lítil trébryggja var reist árið 1874 af M. Ritchie, skoskum athafnamanni á staðnum. Árið 1895 byggði Thor Jensen bryggju við Steinsvör og þróun hafnarsvæðisins hélt áfram árin þar á eftir. Framkvæmdir við núverandi hafnarsvæði við Krossavík hafa staðið yfir frá árinu 1930 til dagsins í dag. Akraneshöfn þjónaði sem mikilvæg ferjuhöfn með ferjubryggju fyrir Akraborgina sem sigldi milli Reykjavíkur og Akraness í fjöldamörg ár þar til rekstri hennar var hætt, vegna tilkomu Hvalfjarðarganga.  Akraneshöfn státar nú af góðri höfn og styrkir það alla hafnsækna starfsemi í bænum. Frekari uppbygging er fyrirhuguð á næstu árum til að ýta undir öflugt og blómlegt atvinnulíf.

BORGARNES

Árið 1920 hófst undirbúningur að hafnargerð í Borgarnesi. Síðan liðu þó nokkur ár þar til eiginleg gerð hafnar hófst. Alþingi samþykkti lög um hafnargerð í Borgarnesi árið 1926 og hófst undirbúningur hafnargerðar í Brákarey og Brákarsundi. Hafist var handa 1929  og lauk framkvæmdum í nóvember 1930 þegar fyrsta skipið lagðist að  nýrri bryggju. Akraborgin sigldi til Borgarness allt til ársins 1966.  Síðar þjónaði Eldborg siglingum í Borgarneshöfn en það skip var eitt fengsælasta skip flotans á fjórða og fimmta tug 20. aldar. Bættar samgöngur á landi gerðu Borgarneshöfn ekki eins mikilvæga og áður en með byggingu Borgarfjarðarbrúar 1980 varð landleiðin aðal samgönguleiðin á svæðið. Í dag þjónar Borgarneshöfn fyrst og fremst minni fiski- og skemmtibátum.

GRUNDARTANGI

Grundartangahöfn er byggð í landi Klafastaða í Hvalfjarðarsveit. Höfnin þjónaði aðallega járnblendiverksmiðju Elkem til ársins 1998 þegar Norðurál hf hóf þar stafsemi. Sementsverksmiðjan notaði einnig höfnina til innflutnings á kolasalla og ýmis smærri innflutningur fór um höfnina. Hafnargerð á Grundartanga hófst árið 1977 og er Grundartangahöfn nú meðal stærstu hafna landsins. Hún er rekin af Faxaflóahöfnum og er í eigu Hvalfjarðarsveitar, Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar og Skorradalshrepps.

bottom of page